Samfélagsmiðlar

Hlutabréfin í Icelandair ofan í „skúffu í skattaparadís“

Hlutabréf langstærsta hluthafans í Icelandair eru skráð á írskt félag með enga eiginlega starfsemi. Formaður bankaráðs Seðlabankans segir aðspurður að mikilvægt sé að loka fyrir glufur sem skattaskúffur búa til.

Hlutur stærsta hluthafa Icelandair jafnast á við eign níu stærstu lífeyrissjóðanna á hluthafalista flugfélagsins.

Botninn datt úr rekstri flugfélaga þegar Covid-19 breiddist út um heiminn í ársbyrjun 2020. Í framhaldinu fengu þau flest einhverskonar ríkisstuðning enda fóru fá flugfélög á hausinn í heimsfaraldriunum þrátt fyrir gríðarlegt tekjutap.

Í sumum tilvikum keypti hið opinbera hlutabréf í flugfélögunum og sú leið var til að mynda farin í Þýskalandi. Þar eignaðist þýska ríkið fimmtung í Lufthansa samsteypunni sem seldur hefur verið í pörtum síðustu misseri. Í vikunni losuðu Þjóðverjar sig við síðustu bréfin í flugfélaginu og samkvæmt frétt Financial Times hagnaðist þýska ríkið um 760 milljónir evra eða um 106 milljarða króna á viðskiptunum með bréfin í Lufthansa.

Hér heima var opinber stuðningur við Icelandair meðal annars fólgin í almennum aðgerðum sem þó voru að hluta til sniðnar að þörfum flugfélagsins. Einnig samþykkti Alþingi, í september 2020, að ríkið myndi ábyrgjast 90 prósent af 16,4 milljarða kr. láni sem Íslandsbanki og Landsbanki voru tilbúnir til að veita. Ábyrgð ríkisins hefði þá numið um 15 milljörðum kr.

Ekkert varð af þessari lántöku sem skrifast líklega að miklu leyti á aðkomu bandaríska lánasjóðsins Bain Capital Credit í júní 2021. Sjóðurinn keypti þá nærri 17 prósent hlut í Icelandair en um var að ræða nýtt hlutafé. Þar með lækkaði eignarhlutur annarra fjárfesta, meðal annars þeirra sem tóku þátt í hlutafjárútboði flugfélagsins níu mánuðum áður. Bain Capital Credit greiddi 8,1 milljarð króna fyrir nýju bréfin og varð langstærsti hluthafinn.

Lánasjóðurinn er þó ekki skráður fyrir fjárfestingunni í eigin nafni heldur írskt félag sem heitir Blue Issuer DAC en það var stofnað 26. apríl 2021, tveimur mánuðum fyrir kaupin í Icelandair.

Í kauphallartilkynningum Icelandair, þar sem vísað er til langstærsta hluthafans, er því ekki talað um Bain Capital Credit heldur Blue Issuer DAC. Á hluthafalista flugfélagsins trónir þetta írska félag á toppnum en í næstu sætum eru íslenskir lífeyrissjóðir og bankar.

Stærsti hluthafinn í Icelandair, sem skilgreint hefur verið sem þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki, er því írskt félag með enga eiginlega starfsemi. Spurður út í þetta fyrirkomulag þá segir Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans og prófessor við Háskóla Íslands, að tilgangurinn sé að lágmarka skattgreiðslur.

„Það kemur ekki á óvart að þessi eignarhlutur sé geymdur í skúffu í skattaparadís. Það er auðvitað gert til að greiða sem minnst í sameiginlega sjóði. Það er væntanlega fyllilega löglegt en sýnir bara mikilvægi þess að loka almennt fyrir þær glufur sem skattaskúffur búa til á skattkerfum. Það er hins vegar almennt viðfangsefni en ekki sérstakt vegna Icelandair,“ segir Gylfi í svari til Túrista.

Talsmaður Bain Capital Credit sagði í svari við Túrista í fyrra að það væri ekki óalgengt að sjóðurinn fjárfesti í gegnum einingar utan Bandaríkjanna líkt og gert var í tilviki Icelandair.

Túristi hefur á ný reynt að fá útskýringar frá bandaríska lánasjóðnum á þessu írska eignarhaldi en nú fást engin svör. Til að mynda við spurningunni afhverju ekki var fjárfest í Icelandair í gegnum íslenskt félag.

Ef hlutabréf Bain Capital Credit væru skráð hér á landi þá fengi íslenska ríkið umtalsverða skattgreiðslu ef bréfin yrðu seld í dag. Markaðsvirði þeirra er 13,8 milljarðar króna en samtals hefur bandaríski lánasjóðurinn fjárfest 10,4 milljörðum kr. í Icelandair. Fyrst voru það 8,1 milljarðar kr. sumarið 2021 en í júlí sl. bættust við 2,3 milljarðar þegar Bain Capital Credit nýtti rétt sinn á kaupum á viðbótar hlutafé.

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …