Samfélagsmiðlar

„Það tekur tíma að kynna nýjan áfangastað“

Ekki er búist við að markaðurinn í Þýskalandi taki ekki að fullu við sér fyrr en á næsta ári gagnvart þeim möguleikum að fljúga beint með Condor frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða. Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir unnið að því að kynna fjárfestum möguleikana á Austurlandi.

Jóna Árný, Clea Braun, Bogi Nils

Jóna Árný, Clea Braun frá Condor (fyrir miðju) og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á Mannamótum í janúar.

Það styttist í þau tímamót að ferðafólk komi í beinu áætlunarflugi frá Frankfurt – annað hvort til Egilsstaða á þriðjudögum eða Akureyrar á laugardögum. Flugið hefst í maí og stendur til loka október. Ætla má að um 10 þúsund sæti verði í boði í þeim 50 ferðum sem farnar verða frá Þýskalandi í sumar. Meðal þeirra sem geta nýtt sér þessa möguleika er íslenskt ferðafólk sem kýs að fljúga frá Egilsstöðum eða Akureyri til Frankfurt og þaðan til baka.

Upplýsingafulltrúi Condor sagði Túrista að áhuginn á þessum ferðum væri að aukast en viðurkenndi að herða þyrfti róðurinn:

„Engu að síður verður við að halda áfram að láta ferðalanga vita af þessum nýja flugi okkar til Íslands en við verðum var við eftirspurn frá bæði ferðaskrifstofum og einstaklingum.“

MYND: Condor

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, vann að því á sínum tíma að koma á þessu Þýskalandsflugi en segist gera sér grein fyrir að markaðsstarfið taki tíma.

„Það tekur tíma að kynna nýjan áfangastað. Það gerist ekki með áhlaupi. Þetta byggist upp með stöðugri vinnu allra sem að þessu koma: ferðaskrifstofa, gististaða, margskonar þjónustuaðila, sem sumir hverjir vinna langt fram í tímann. Þessi vinna er í fullum gangi, og sömuleiðis markaðsherferð Condor, sem er nýlega komin á fullt skrið því aðal bókunartíminn er framundan, bæði varðandi ferðaskrifstofur en ekki síður sölu á farmiðum til einstaklinga.“

Jóna Árný Þórðardóttir – MYND: Esther Ösp Gunnarsdóttir

Jóna Árný er enn bjartsýn á þá möguleika sem felast í þessu flugi beint á Austurland og Norðurland.

„Alþekkt er að fyrsta árið skilar ekki strax öllu því sem nýir staðir eiga inni. Það gerist ekki að fullu fyrr en á næsta ári. Við höfum ekki innsýn í bókunarstöðuna hverju sinni og almennt eru flugfélögin ekki að gefa slíkt upp. Okkur sýnist að almennt á erlendum mörkuðum séu bókanir til Íslands seint á ferðinni. Það er nokkuð sem breyttist í heimsfaraldrinum og virðist ekki hverfa jafn hratt til fyrra horfs og sumir töldu. Við erum sannfærð um að gestir okkar og fólk hér á svæðinu taki við sér og finnum við fyrir mikilli jákvæðni og stemmningu gagnvart þessum nýja flugi.“

Meðal þess sem fólk í ferðaþjónustu hefur áhyggjur af er hótelplássið í sumar. Fá Þjóðverjarnir allir gistingu fyrir norðan og austan? Upplýsingafulltrúi Condor vonast til að áætlunarflugið norður og austur verði hvati til uppbyggingar:

„Flugferðir Condor munu hafa jákvæð áhrif á framgang ferðaþjónustunnar á þessum svæðum.“  

En hvað segir Jóna Árný um horfurnar í þessum málum? Austurbrú vinnur náið með fólki í ferðaþjónustu á Austurlandi og er í sambandi við hugsanlega fjárfesta.

„Eitt af því sem við höfum verið að vinna að er að kynna Austurland fyrir fjárfestum – og auka fjárfestingar í ferðaþjónustu. Hér er fjöldi gististaða af öllum stærðum og gerðum og miðað við okkar upplýsingar er enn töluvert laust. Það er hins vegar ekkert launungarmál að hér höfum við talað fyrir aukinni fjárfestingu í gistirýmum til framtíðar, óháð fluginu. Við héldum fund með fjárfestum í lok síðasta árs til að kynna allt það sem svæðið hefur að bjóða og minna á flugið og höfum í framhaldinu hamrað það járn. Það er of snemmt að segja til um heimturnar en þó má nefna að í síðustu viku var tilkynnt um áform um mikla uppbyggingu bústaða við Eiða, allt að 160 lóðir fyrir sumarhús. Ég vona að þetta sé forsmekkur að því sem koma skal.“

Á Seyðisfirði – MYND: Icelandic Explorer
Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …