Samfélagsmiðlar

„Ég ætla að ná í farþegana úr Vatnsmýrinni“

Þrátt fyrir jákvæðari horfur þá hafa stjórnendur Play lækkað afkomuspá sem gefin var út í nóvember. Forstjóri Play segist ekki gera ráð fyrir að markaðurinn stækki og ætlar sér að ná farþegum frá helsta keppinautnum, Icelandair.

„Ég vona alla vega að ég hafi ekki sagt neitt annað en að þetta yrði drulluerfiður rekstur," segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Play birti í gær uppgjör fyrir síðasta ár og niðurstaðan var tap upp á 7,5 milljarð króna sem er miklu verri niðurstaða en gert var ráð fyrir þegar félagið kynnti áform sín fyrir fjárfestum sumarið 2021. Stjórnendur Play segja þó margar jákvæðar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu; salan í janúar hafi verið mjög góð, tekjur af hverjum farþega fari hækkandi og fraktflutningar að aukast. Á sama tíma hefur verð á þotueldsneyti lækkað frá því í fyrra.

Þrátt fyrir þetta þá hefur afkomuspáin fyrir árið verið lækkuð. Í nóvember sl. var gert ráð fyrir að svokallað EBIT-hagnaðarhlutfall yrði að lágmarki 5 prósent en núna er eingöngu talað um væntingar um jákvæða afkomu.Til samanburðar horfa stjórnendur Icelandair til þess að hagnaðarhlutfallið þar verði á bilinu 4-6 prósent.

Spurður um ástæður þess að þriggja mánaða gamalli spá hafi verið breytt þá segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, að skýringin sé sú að þau vilji hafa vaðið fyrir neðan sig, ekki síst í ljósi þess sem hefur verið gerast á síðustu dögum.

„Við sjáum ekkert nema jákvæð teikn en ef allt stöðvast vegna verkfalla þá mun það setja strik í reikninginn. Þetta er hæfilega varfærið á þessum tímapunkti en vonandi getum við uppfært spána þegar líður á árið. Þetta snýst um sumarið, það verður auðvitað tap á fyrsta fjórðungi í takti við sveiflur í svona rekstri. Við eigum því eftir að tapa áður en við náum hagnaði en eins og við sögðum frá í gær þá eru allir mælar á grænu.“

Play átti um 30 milljónir dollara (um 4,2 milljarða kr.) í sjóði um áramótin og segja má að helmingurinn af upphæðinni hafi komið inn í hlutafjárútboði í nóvember. Þá sagðirðu að þið þyrftuð í raun ekki á þessu aukna hlutafé að halda en er ekki ljóst að þið munið ganga á þetta fé á næstu mánuðum?

„Það er auðvitað gríðarlegt innflæði líka. Við erum að fá miða greidda í dag löngu áður en við fljúgum. Þannig að það er að byggjast upp sjóðstaða mjög hratt. Þó ég hafi sagt að við þyrftum ekki peninginn þá var ég meira að vísa til þess að við kæmumst alveg í gegnum þetta án þess að fá þessa innspýtingu því það eru engir stórir kostnaðarliðir framundan eða vanskil.“

Þota Play tekur á loft frá Stansted flugvelli í London

En þið eruð að fá nýjar þotur, það hlýtur að kosta sitt.

„Jú, en það er allt inn á áætlun og við erum að stórum hluta búin að greiða fyrir þá viðbót fyrir löngu síðan.“

Þið komist þá inn á sumarið án þess að fá meira hlutafé eða taka lán?

„Já, það er ekki okkar plönum um að gera það. Þegar við fengum nýtt hlutafé í nóvember þá var áhugi frá stærstu hluthöfunum sem vildu taka af allan vafinn um að félagið stæði tæpt.“

En ef þið hefðuð ekki fengið þessa upphæð þá hefðuð þið verið með helmingi minna í handbæru fé um áramótin og langt er í sumarið. Hefði það ekki verið brjálæði?

„Það byggist upp á móti. Það er ekki eins og það komi ekkert inn.“

Það er samt taprekstur á þessum tíma.

„Vissulega. Svo verðum við fyrir höggi í desember út af veðrinu, eins og við tiltókum. Það hefur verið meiri mótvindur en við gerðum ráð fyrir og auðvitað var gott að fá þessa innspýtingu þó við höfum talið okkur vera örugg um að komast í gegnum veturinn og inn í sumarið.“

Afkoman í fyrra var töluvert undir væntingum og þó það sé kannski óþarfi að rifja upp fjárfestakynninguna í tengslum við hlutafjárútboðið 2021 þá voru tekjurnar töluvert lægri í fyrra en lagt var upp með á sínum tíma. Farþegafjöldinn er þó ekki svo langt undir áætlun.

„Við höfum verið í rekstri í 1,5 ár og þegar við vorum að leggja í hann á sínum tíma þá erum við með sviðsmynd – en á þeim tíma reiknuðum við ekki með að það væri eitt ár eftir af Covid. Við gerðum ráð fyrir háu olíuverði, 660 dollurum á tonnið, sem var fáranlega há tala miðað við árin á undan. Svo enduðum við á að borga 1400 til 1500 dollara allt fyrsta árið. Af þessum ástæðum hefur þetta því verið miklu þyngra flugtak.

Verð á þotueldsneyti rauk upp eftir innrás Rússa á Úkraínu fyrir ári síðan – MYND: BP

Ég held að tekjumálin hefðu sloppið ef við hefðum ekki fengið á okkur hækkun á eldsneytiskostnaði um rúmlega 30 milljónir dollara. Tapið hefði því ekki orðið svona stórt. Núna eru við að fá fleiri farþega, betri sætanýtingu, meira af ferðaskrifstofum í viðskipti, aukna fraktflutninga og fleira. Við erum því miklu sterkara félag og teljum okkur geta verið bjartsýn. 

Ég vona alla vega að ég hafi ekki sagt neitt annað en að þetta yrði drulluerfiður rekstur og við erum að rykkja risastóru fyrirtæki í gang og það hefur verið erfiðara en við bjuggumst við.“

Þú sagðir að tekjurnar hefðu verið of lágar í lok síðasta sumars vegna skorts og verðlags á gistingu og bílaleigubílum. Þið urðuð því að reiða ykkur á tengifarþega sem gefa ykkur víst minna en erlendir ferðamenn. Nú heyrist að víða um land stefni í skort á gistingu frá og með vorinu. Finnið þið fyrir þessu og eruð þið farin að undirbúa ykkur undir þessa stöðu?

„Við erum ekki endilega að gera ráð fyrir því að kakan stækki og við tökum viðbótina. Ég get alveg sagt það beint út að við ætlum að sækja þessa farþega, erlenda ferðamenn, til Icelandair. Alveg eins og Íslendinga á leiðinni út, við erum að ná 25-30 prósent af heimamarkaðnum og erum að stilla upp gríðarlegu framboði til Portúgal, Spánar og Ítalíu í sumar og ég ætla að ná í farþegana úr Vatnsmýrinni. 

Ég vona að ferðaþjónustan anni þessum 2,3 milljónum ferðamanna sem ætla að koma hingað í ár og ég tel að núna verðum við ekki eins illa milli skips og bryggju og gerðist í fyrra þegar ferðaskrifstofurnar voru varla hjá okkur. Núna höfum við náð til okkar ferðaskrifstofum sem voru áður í viðskiptum við Icelandair.“

Hvernig náið þið þeim til ykkar?

„Með betra verði. Við erum að nýta okkur það að einingakostnaðurinn hjá okkur er miklu lægri þannig að sérstaklega í point-to-point flugi, þar sem fólk er að leita eftir hefðbundnum sætum en ekki á viðskiptafarrými, þá erum við miklu samkeppnishæfari. Getum boðið miklu betra verð án þess þó að selja undir kostnaðarverði. Íslendingar á leiðinni í frí og ferðamenn á leið til landsins eru ekki hefðbundnir viðskiptafarþegar en Icelandair er auðvitað miklu sterkara en við þegar kemur að premium vöru.“

Nýtt efni

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …

Rauðu og hvítu sporvagnarnir hafa verið meðal táknmynda Istanbúl, þjónað íbúum og ferðamönnum í meira en öld. Nú líður að því að þeim verði skipt út fyrir vagna sem búnir verða rafhlöðum. Vagnarnir hafa gengið eftir spori á Istiklal-breiðgötunni Evrópumegin í Istanbúl. Þeir voru fyrst teknir í notkun árið 1914, á dögum Ottómanveldisins. Ýmsar lagfæringar …

Skattaívilnanir til kaupa á nýjum rafbílum féllu niður um áramótin en frádrátturinn gat numið allt að 1,3 milljónum króna. Nú fæst 900 þúsund króna styrkur frá Orkusjóði í staðinn en sala á rafbílum hefur þó dregist umtalsvert saman það sem af er ári. Á þessum tíma í fyrra höfðu 3.211 nýir rafbílar verið skráðir nýir …

Seljendur hlutabréfa í almennu hlutafjárútboði Íslandshótela, stærsta hótelfyrirtæki landsins, hafa ákveðið að falla frá útboði og þar með skráningu félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Almennu hlutafjárútboði Íslandshótela lauk seinnipartinn í gær en í ljósi þessarar ákvörðunar munu allar áskriftir falla sjálfkrafa niður. Þetta kemur fram í tilkynningu. Vel á þriðja þúsund aðilar tóku þátt í …

MYND: ÓJ

Nýbirt Þróunarvísitala ferðageirans (Travel & Tourism Development Index) fyrir árið 2024, sem Alþjóðaefnahagsráðið ( World Economic Forum) tekur saman annað hvert ár, sýnir að Ísland fellur niður listann um 10 sæti frá 2019 - í 32. sæti, Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru töluvert ofar en Noregur er hins vegar ekki meðal þeirra 119 landa sem …

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar áformaði að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu úr 11 prósentum í 24 prósent um mitt árið 2018. Stjórnin sprakk hins vegar áður en málið fór í gegnum Alþingi. Samtök ferðaþjónustunnar börðust gegn þessari hækkun á sínum tíma og í morgun efndu samtökin til fundar í ljósi þess að „undanfarin misseri …

Ferðafólk fylgist með hval dregnum á land í Hvalfirði

Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands dagana 30. apríl til 7. maí 2024 eru 49 prósent aðspurðra því andvíg að leyfi Hvals hf. til veiða á langreyðum verði endurnýjað. Hins vegar eru 35 prósent aðspurðra því hlynnt. Beðið er ákvörðunar nýs matvælaráðherra. Meginniðurstöður könnunar Maskínu fyrir Náttútuverndarsamtök Íslands - MYND: Maskína Niðurstöður Matvælastofnunar í …