Samfélagsmiðlar

„Ég ætla að ná í farþegana úr Vatnsmýrinni“

Þrátt fyrir jákvæðari horfur þá hafa stjórnendur Play lækkað afkomuspá sem gefin var út í nóvember. Forstjóri Play segist ekki gera ráð fyrir að markaðurinn stækki og ætlar sér að ná farþegum frá helsta keppinautnum, Icelandair.

„Ég vona alla vega að ég hafi ekki sagt neitt annað en að þetta yrði drulluerfiður rekstur," segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Play birti í gær uppgjör fyrir síðasta ár og niðurstaðan var tap upp á 7,5 milljarð króna sem er miklu verri niðurstaða en gert var ráð fyrir þegar félagið kynnti áform sín fyrir fjárfestum sumarið 2021. Stjórnendur Play segja þó margar jákvæðar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu; salan í janúar hafi verið mjög góð, tekjur af hverjum farþega fari hækkandi og fraktflutningar að aukast. Á sama tíma hefur verð á þotueldsneyti lækkað frá því í fyrra.

Þrátt fyrir þetta þá hefur afkomuspáin fyrir árið verið lækkuð. Í nóvember sl. var gert ráð fyrir að svokallað EBIT-hagnaðarhlutfall yrði að lágmarki 5 prósent en núna er eingöngu talað um væntingar um jákvæða afkomu.Til samanburðar horfa stjórnendur Icelandair til þess að hagnaðarhlutfallið þar verði á bilinu 4-6 prósent.

Spurður um ástæður þess að þriggja mánaða gamalli spá hafi verið breytt þá segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, að skýringin sé sú að þau vilji hafa vaðið fyrir neðan sig, ekki síst í ljósi þess sem hefur verið gerast á síðustu dögum.

„Við sjáum ekkert nema jákvæð teikn en ef allt stöðvast vegna verkfalla þá mun það setja strik í reikninginn. Þetta er hæfilega varfærið á þessum tímapunkti en vonandi getum við uppfært spána þegar líður á árið. Þetta snýst um sumarið, það verður auðvitað tap á fyrsta fjórðungi í takti við sveiflur í svona rekstri. Við eigum því eftir að tapa áður en við náum hagnaði en eins og við sögðum frá í gær þá eru allir mælar á grænu.“

Play átti um 30 milljónir dollara (um 4,2 milljarða kr.) í sjóði um áramótin og segja má að helmingurinn af upphæðinni hafi komið inn í hlutafjárútboði í nóvember. Þá sagðirðu að þið þyrftuð í raun ekki á þessu aukna hlutafé að halda en er ekki ljóst að þið munið ganga á þetta fé á næstu mánuðum?

„Það er auðvitað gríðarlegt innflæði líka. Við erum að fá miða greidda í dag löngu áður en við fljúgum. Þannig að það er að byggjast upp sjóðstaða mjög hratt. Þó ég hafi sagt að við þyrftum ekki peninginn þá var ég meira að vísa til þess að við kæmumst alveg í gegnum þetta án þess að fá þessa innspýtingu því það eru engir stórir kostnaðarliðir framundan eða vanskil.“

Þota Play tekur á loft frá Stansted flugvelli í London

En þið eruð að fá nýjar þotur, það hlýtur að kosta sitt.

„Jú, en það er allt inn á áætlun og við erum að stórum hluta búin að greiða fyrir þá viðbót fyrir löngu síðan.“

Þið komist þá inn á sumarið án þess að fá meira hlutafé eða taka lán?

„Já, það er ekki okkar plönum um að gera það. Þegar við fengum nýtt hlutafé í nóvember þá var áhugi frá stærstu hluthöfunum sem vildu taka af allan vafinn um að félagið stæði tæpt.“

En ef þið hefðuð ekki fengið þessa upphæð þá hefðuð þið verið með helmingi minna í handbæru fé um áramótin og langt er í sumarið. Hefði það ekki verið brjálæði?

„Það byggist upp á móti. Það er ekki eins og það komi ekkert inn.“

Það er samt taprekstur á þessum tíma.

„Vissulega. Svo verðum við fyrir höggi í desember út af veðrinu, eins og við tiltókum. Það hefur verið meiri mótvindur en við gerðum ráð fyrir og auðvitað var gott að fá þessa innspýtingu þó við höfum talið okkur vera örugg um að komast í gegnum veturinn og inn í sumarið.“

Afkoman í fyrra var töluvert undir væntingum og þó það sé kannski óþarfi að rifja upp fjárfestakynninguna í tengslum við hlutafjárútboðið 2021 þá voru tekjurnar töluvert lægri í fyrra en lagt var upp með á sínum tíma. Farþegafjöldinn er þó ekki svo langt undir áætlun.

„Við höfum verið í rekstri í 1,5 ár og þegar við vorum að leggja í hann á sínum tíma þá erum við með sviðsmynd – en á þeim tíma reiknuðum við ekki með að það væri eitt ár eftir af Covid. Við gerðum ráð fyrir háu olíuverði, 660 dollurum á tonnið, sem var fáranlega há tala miðað við árin á undan. Svo enduðum við á að borga 1400 til 1500 dollara allt fyrsta árið. Af þessum ástæðum hefur þetta því verið miklu þyngra flugtak.

Verð á þotueldsneyti rauk upp eftir innrás Rússa á Úkraínu fyrir ári síðan – MYND: BP

Ég held að tekjumálin hefðu sloppið ef við hefðum ekki fengið á okkur hækkun á eldsneytiskostnaði um rúmlega 30 milljónir dollara. Tapið hefði því ekki orðið svona stórt. Núna eru við að fá fleiri farþega, betri sætanýtingu, meira af ferðaskrifstofum í viðskipti, aukna fraktflutninga og fleira. Við erum því miklu sterkara félag og teljum okkur geta verið bjartsýn. 

Ég vona alla vega að ég hafi ekki sagt neitt annað en að þetta yrði drulluerfiður rekstur og við erum að rykkja risastóru fyrirtæki í gang og það hefur verið erfiðara en við bjuggumst við.“

Þú sagðir að tekjurnar hefðu verið of lágar í lok síðasta sumars vegna skorts og verðlags á gistingu og bílaleigubílum. Þið urðuð því að reiða ykkur á tengifarþega sem gefa ykkur víst minna en erlendir ferðamenn. Nú heyrist að víða um land stefni í skort á gistingu frá og með vorinu. Finnið þið fyrir þessu og eruð þið farin að undirbúa ykkur undir þessa stöðu?

„Við erum ekki endilega að gera ráð fyrir því að kakan stækki og við tökum viðbótina. Ég get alveg sagt það beint út að við ætlum að sækja þessa farþega, erlenda ferðamenn, til Icelandair. Alveg eins og Íslendinga á leiðinni út, við erum að ná 25-30 prósent af heimamarkaðnum og erum að stilla upp gríðarlegu framboði til Portúgal, Spánar og Ítalíu í sumar og ég ætla að ná í farþegana úr Vatnsmýrinni. 

Ég vona að ferðaþjónustan anni þessum 2,3 milljónum ferðamanna sem ætla að koma hingað í ár og ég tel að núna verðum við ekki eins illa milli skips og bryggju og gerðist í fyrra þegar ferðaskrifstofurnar voru varla hjá okkur. Núna höfum við náð til okkar ferðaskrifstofum sem voru áður í viðskiptum við Icelandair.“

Hvernig náið þið þeim til ykkar?

„Með betra verði. Við erum að nýta okkur það að einingakostnaðurinn hjá okkur er miklu lægri þannig að sérstaklega í point-to-point flugi, þar sem fólk er að leita eftir hefðbundnum sætum en ekki á viðskiptafarrými, þá erum við miklu samkeppnishæfari. Getum boðið miklu betra verð án þess þó að selja undir kostnaðarverði. Íslendingar á leiðinni í frí og ferðamenn á leið til landsins eru ekki hefðbundnir viðskiptafarþegar en Icelandair er auðvitað miklu sterkara en við þegar kemur að premium vöru.“

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …