Samfélagsmiðlar

Fáir sem kolefnisjafna hjá Icelandair

Með því að gera kolefnisjöfnun hluta af bókunarferli á flugmiðum þá er hægt að fá mun fleiri til kolefnisjafna flugferðir samkvæmt reynslu svissneskra umhverfissamtaka. Hjá Icelandair er vísbending um að sárafáir nýti sér þess háttar þjónustu jafnvel eftir að sérstök reiknivél var sett á heimasíðu flugfélagsins.

Icelandair hefur boðið farþegum að kolefnisjafna flugferðir í meira en áratug. Í haust hleypti félagið af stokkunum nýrri reiknivél á kolefnisfótspori þar sem farþegar geta borga beint fyrir losunina. Fáir nýta sér þann valkost.

Það var í lok september sem Icelandair hleypti af stokkunum reiknivél þar sem farþegar gátu reiknað út kolefnisfótspor sitt eftir því hvert ferðinni er heitið og hvar í vélinni setið er. Farþegar á Saga farrými menga nefnilega mun meira en aðrir. Farþegum stendur svo til boða að kolefnisjafna flugferðina með því að greiða nokkur þúsund krónur til flugfélagsins sem nýtir fjármagnið til að kaupa plöntur af Kolviði.

Rúmlega sjö hundruð kaup á kolefnislosun voru gerð í gegnum heimasíðu Icelandair í október og nóvember samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag. Til samanburðar flutti félagið um sex hundruð þúsund farþega þessa tvo mánuði en þó ber að hafa í huga að hver þeirra er talinn á hverjum fluglegg. Engu að síður er þetta vísbending um að rétt um einn af hverjum 300 farþegum Icelandair nýti sér þessa leið.

Þetta er mun lægra hlutfall en þekkist til að mynda hjá flugfélögum sem nýta sér kolefnisjöfnun á vegum samtakanna MyClimate en þar á meðal eru flugfélög innan Lufthansa samsteypunnar. „Reynsla okkar sýnir að 1 til 2 prósent farþega kolefnisjafnar í gegnum heimasíðu flugfélaga þegar þess háttar er í boði. Aftur á móti hækkar það hlutfall upp í 5 til 6 prósent ef þessi möguleiki er hluti af bókunarferlinu á farmiðunum sjálfum,“ segir Kai Landwehr, talsmaður MyClimate í samtali við Túrista. Á heimasíðu Icelandair er kolefnisfótspors útreikningurinn á miðri forsíðu og ekki hluti af bókunarferlinu öfugt við það sem gildir um kaup á farangri, sætum og veitingum.

Kai Landwehr, frá MyClimate, segir jafnframt á að í ár hafi fjöldi þeirra sem kaupa kolefnislosun hjá MyClimate ríflega þrefaldast. „Ekki aðeins til að jafna út flugferðir heldur líka bílferðir, heimilishald og almennt kolefnisfótspor.“ En MyClimate hóf starfsemi fyrir fimmtán árum síðan og eru samtökin ekki hagnaðardrifin. Um 90 prósent viðskiptavina eru fyrirtæki og þar á meðal eru flugfélög innan Lufthansa Group sem kolefnisjafna flugferðir starfsmanna og líka flugliða.

Icelandair hefur ekki tekið það skref og setur þetta alfarið í hendurnar á farþegunum sjálfum. Þessu er hins vegar öfugt farið hjá flugfélögum eins og SAS og easyJet líkt og Túristi hefur áður bent á. Þannig kolefnisjafnar SAS flugferðir starfsmanna og allra meðlima í vildarklúbbi félagsins. Það dugar til að vega upp á móti um fjörutíu prósent af losun vegna farþegaflugs félagsins.

Hjá breska flugfélaginu easyJet var nýverið tekið ennþá stærra skref því þar á bæ verður öll eldsneytisnotkun flugflotans kolefnisjöfnuð á næsta ári. Stjórnendur breska flugfélagsins gera ráð fyrir að sú aðgerð kosti fyrirtækið um 25 milljónir punda á næsta ári en það samsvarar um fjórum milljörðum króna. Fyrir samskonar átak þyrfti Icelandair að greiða um 175 milljónir króna úr eigin vasa ef kolefnisjöfnunarútreikningar easyJet er notaðir.

Aftur á móti er losun á hvern farþega Icelandair líklega hærri en hjá easyJet þar sem þotur íslenska félagsins, ef MAX flugvélarnar eru frátaldar, eru komnar til ára sinna og mun eyðslufrekari en þotur easyJet. Sætanýtingin hjá Icelandair er á sama tíma nokkru lægri en hjá breska flugfélaginu. Icelandair er einnig stórtækt í frakflutningum sem eykur heildarlosunina en flugfélaginu til bóta má benda á að eyríki eins og Ísland er háð vöruflutningum í flugi að nokkru leyti.

Í allri umræðu um aðferðir til að slá á flugviskubitið þá er gott að hafa í huga að  fluggeirinn miðar reglulega við lægsta mælikvarða í útreikningum sínum á losun gróðurhúsalofttegunda vegna eldsneytisnotkunar líkt og Túristi fjallaði um í haust.

Þess má geta í lokin að frá og með næsta ári verða allar flugferðir viðskiptavina Bændaferða kolefnisjafnaðar og tekur ferðaskrifstofan sjálf þátt í kostnaðinum.

Nýtt efni

„Samstarf fólks um allt land er forsenda þess að þróunin verði Grænlandi í hag. Ferðamenn virða ekki sveitamörk heldur eru með hugann allan við að njóta áfangastaða sinna. Þess vegna er svo brýnt að við sem áfangastaðurinn Grænland vinnum saman að því að bjóða upp á óaðfinnanlega og heildstæða upplifun - og náum saman, bæði …

Biðinni er brátt lokið og eftirvæntingarfullir aðdáendur írska rithöfundarins Sally Rooney getað andað léttar því að í liðinni viku var tilkynnt af The Wylie Agency, umboðsskrifstofu rithöfundarins, að ný bók væri væntanleg frá henni þriðjudaginn 24. september 2024.  Alex Bowler, talsmaður Faber & Faber, enska forlags rithöfundarins, sendi líka frá sér tilkynningu í tilefni af væntanlegri  …

Farþegar á Keflavíkurflugvelli gátu að jafnaði valið á milli nærri 10 brottfara á dag til höfuðborgar Bretlands í síðasta mánuði. Þetta er viðbót um eina ferð frá sama tíma í fyrra ef tillit er tekið til þess að nú er hlaupaár. London var sú borg sem oftast var flogið til frá Keflavíkurflugvelli í febrúar samkvæmt …

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …