Samfélagsmiðlar

Milljón á dag í þóknun af rútumiðum

Tekjur Isavia hækkuðu verulega eftir útboð á aðstöðu fyrir sætaferðir til höfuðborgarinnar. Í kjölfarið urðu rútumiðarnir dýrari og leiða má að því líkur að umferðin um Reykjanesbraut hafi aukist og þar með mengunin sem tengist flugfarþegum.

Mislangar biðraðir við Flugrútuna og Airport Direct.

Þegar farþegar kaupa sér farmiða með Flugrútunni frá Keflavíkurflugvelli þá fær Isavia 41,2 prósent af söluverðinu í sinn hlut. Reykjavik Sightseeing, sem rekur Airport Direct, borgar Isavia þriðjung af verði hvers farmiða. Þessi háu hlutföll eru niðurstaða útboðs Isavia þar sem rútufyrirtæki buðu í aðstöðu fyrir sætaferðir milli höfuðborgarinnar og Leifsstöðvar.

Til viðbótar borga fyrirtækin 450 þúsund krónur á mánuði í leigu á stæðunum beint fyrir framan flugstöðina. Áður var greitt farþegagjald til Isavia sem var hlutfallslega mun lægra en sem nemur núverandi þóknun.

Þessi krafa Isavia, um að fá stóran skerf af söluverði rútumiða, var því nýlunda þegar hún var kynnt í útboðsgögnum sumarið 2017. Og til að tryggja sér ákveðnar tekjur þá fór Isavia fram á þóknun sem byggði á lágmarksveltu. Þar með hafa Kynnisferðir, sem eiga Flugrútuna, þurft að borga að lágmarki 175 milljónir á ári fyrir aðstöðuna og Reykjavik Sightseeting 140 milljónir króna. Fjöldi ferðamanna á fyrsta rekstrarári var þó nokkuð umfram það lágmark sem reiknað var með og tekjur Isavia því ennþá hærri.

Nú eru tvö ár liðin af samningnum og eru bæði fyrirtækin í skilum við Isavia samkvæmt svörum frá framkvæmdastjórum fyrirtækjanna tveggja. Tekjur Isavia af stæðunum hafa því síðustu tvö ár verið hátt í milljón krónur á dag. Samhliða þeirri miklu fækkun ferðamanna sem er í kortunum þá munu tekjurnar lækka. Hækkun vísitölu getur þó vegið þar upp á móti að einhverju leyti.

Aðspurður um hvort telja megi þetta eðlilega gjaldtöku fyrir afnot af bílastæðum þá segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, að samið hafi verið við hæstbjóðendur og þóknunin réðst af því hvað rútufyrirtækin buðu sjálf. „Því er um markaðsverð að ræða,“ segir Guðjón.

Isavia stýrði þó þessu svokallaða markaðsverði að miklu leyti sjálft því í útboðinu urðu þátttakendur að bjóða að lágmarki fjórðungs þóknun. Og í verðdæmi sem finna má í útboðsgögnum er gert ráð fyrir þrjátíu prósent hlutdeild til Isavia.

Þóknunin sjálf vó líka þyngst í útboðinu að mati Björns Ragnarssonar, framkvæmdastjóra Kynnisferða. „Vissulega hefði útboðið geta tekið mið af þáttum eins og reynslu, verðlagningu, gæðum, staðsetningu samgöngumiðstöðvar í Reykjavík og fleira. Þess í  stað réði eingöngu prósentan til Isavia úrslitum,“ segir Björn.

Gera má ráð fyrir að stjórnendur Isavia hafi séð fyrir að krafa þeirra um að fá alla vega fjórðung af söluverði rútumiða myndi fara beint út í verðlagið. Farmiðinn hjá Flugrútunni hækkaði líka í kjölfar útboðsins og Airport Direct (Reykjavik Sightseeing) hóf sína útgerð við Leifsstöð með hærri fargjöldum en áður höfðu sést.

Verðið hækkaði líka hjá Gray Line sem hefur haldið sínum akstri áfram eftir að hafa verið með lægsta tilboðið í útboðinu. Rútur þess bíða eftir farþegum á stæði lengra frá flugstöðinni. Þar voru sett á bílastæðagjöld sem Isavia hefur þurft að lækka þónokkuð eftir að áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi þann úrskurði að undirbúningur að gjaldtökunni hafi verið óvandaður og hún hafi sennilega verið óhófleg og ólögmæt.

Það eru líka vísbendingar um að hækkun miðaverðs hafi fælt íslenska farþega frá og nýtingin í rútunum ekki verið nægjanlega góð. Þannig mun hlutdeild rútufarþega á Reykjanesbrautinni hafa dregist saman samkvæmt könnunum og langtímabílastæðin við Keflavíkurflugvöll fyllast nú þegar margir Íslendingar fljúga til útlanda. Þess vegna hefur Isavia uppi áform um að fjölga bílastæðunum við flugstöðina.

Samkvæmt svari fyrirtækisins, við fyrirspurn Túrista, þá hafa þó ekki verið teknar ákvarðanir um annað en að næsta útboð á aðstöðu fyrir sætaferðir fari fram þegar núverandi samningur rennur sitt skeið árið 2023. „Auðvitað geta þó orðið breytingar á þeim fyrirætlunum félagsins eins og þær liggja fyrir núna,“ segir jafnframt í svari Guðjóns Helgasonar, upplýsingafultrúa Isavia.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.

Nýtt efni

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …