Af þeim 7,2 milljónum farþega sem fóru um Keflavíkurflugvöll í fyrra þá voru um tvær milljónir svokallaðir skiptifarþegar, fólk sem millilendir hér á landi á leið sinni milli Norður-Ameríku og Evrópu. Vægi þessa hóps var ennþá hærra þegar sókn WOW air stóð sem hæst en eftir gjaldþrot félagsins í mars í fyrra dróst það saman. Það hafði einnig mikil áhrif að Icelandair setti aukinn fókus á ferðamenn á leið til landsins eftir fall keppinautarins.
Þrátt fyrir lægra hlutfall skiptifarþega þá hefur þessi hópur verið helsta ástæðan fyrir að Icelandair hefur haldið úti tíðum ferðum til eins margra áfangastaða og raun ber vitni þrátt fyrir smæð heimamarkaðarins. Mikilvægi skiptifarþega hefur því endurtekið verið til umræðu hér á Túrista í gegnum tíðina, til að mynda í tengslum við ofmat Seðlabankans á hylli Íslandsflugs og líka þegar fjallað var um nýja stöðu Keflavíkurflugvallar í byrjun þessa mánaðar.
Það hefur nefnilega sýnt sig að erlend flugfélög taka sjaldnast við keflinu þegar íslensk flugfélög fella niður flugleiðir til Íslands. Þannig var það skarð sem WOW air skyldi eftir sig ekki fyllt nema af litlu leyti og enginn hefur tekið upp þráðinn í þeim borgum sem Icelandair hefur hætt flugi til síðustu ár. Líklegasta skýringin á því er sú að markaðurinn fyrir reglulegar ferðir hingað er takmarkaður, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.
Almenningur hér á landi og ferðaþjónustan hafa notið góðs af sókn Icelandair og síðar WOW air inn á markaðinn fyrir ferðalög milli Evrópu og Norður-Ameríku. Til marks um það þá hefur úrvalið af flugi héðan til Bandaríkjanna verið mun meira en er frá hinum Norðurlöndunum. Það skýrir hátt hlutfall bandarískra ferðamanna hér á landi. Á sama hátt eru flugsamgöngurnar frá Finnlandi til Asíu mun tíðari en dæmi eru um í nágrannalöndunum.
Finnair hefur líka lengi gert út á flug til Austurlanda fjær frá Helsinki og var sú stefna meðal annars mörkuð af finnskum stjórnvöldum sem eiga ríflega helming í finnska flugfélaginu. Og segja má að þessa dagana þurfi íslenskir ráðamenn að gera upp við sig hvort þeir sjái hag í að styðja við viðskiptamódel Icelandair. Ekki bara til að tryggja Íslendingum og íslensku atvinnulífi fjölbreyttar tengingar til útlanda heldur ekki síst til að tryggja að margir útlendingar eigi færi á beinu og reglulegu flugi hingað frá heimalandinu.
Hin leiðin er að vinna að því að áætlunarflug til og frá Íslandi geti staðið undir sér án tengifarþega. Það er ekki einföld leið og um leið sérstaklega áhættusöm í miðjum heimsfaraldri. En Malta er nærtækt dæmi um þess háttar áfangastað. Þar millilenda sárafáir en engu að síður fóru 7,3 milljónir farþega um flugvöllinn í fyrra eða álíka margir og áttu leið um Leifsstöð. Aftur á móti heimsóttu um 2,7 milljónir ferðamanna Möltu í fyrra eða sjö hundrað þúsund fleiri en komu hingað til lands.
Viltu styðja Túrista?
Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.