Samfélagsmiðlar

Ekki er að vænta meiri vetrarþjónustu Vegagerðarinnar að óbreyttu

Líklegt er að vetrarþjónusta Vegagerðarinnar hafi kostað um 5 milljarða króna á síðasta ári en fjárheimildin var upp á 3,8 milljarða. „Að óbreyttu er svigrúm til að auka þjónustu ekki til staðar,” sagði Einar Pálsson hjá Vegagerðinni á opnum fundi um vetrarþjónustuna.

Dettifossleið

Á Dettifossvegi

Ferðaþjónustan vill betri þjónustu Vegagerðarinnar – að viðurkennt verði að ferðaþjónustan sé alvöru atvinnugrein með þarfir um heilsársþjónustu eins og sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Flugfélögin flytja ferðamenn til landsins árið um kring og ef aðrir landshlutar en höfuðborgarsvæðið eiga að njóta hagrænna áhrifa af komum þeirra verði innviðir að leyfa það: Það verður að vera hægt að komast um landið – og það verður að halda sem mest opnum þeim leiðum sem ferðamenn sækjast eftir að fara.

Nokkurn veginn svona eru rök ferðaþjónustunnar.

Á móti segja ýmsir að ferðaþjónustan megi ekki vera of frek, hún verði að laga sig að aðstæðum í landinu, vondum verðum og meðfylgjandi ófærð. Það megi ekki stefna saklausum og fákunnandi ferðamönnum í tvísýnu á erfiðasta árstímanum – og treysta svo á að björgunarsveitarmenn hætti lífi sínu og heilsu í að finna þetta fólk og moka það upp úr sköflum í aftakaveðri. Ferðaþjónustan verði hreinlega að stilla sig inn á þær takmarkanir sem felast í hnattlegu landsins.

Þetta eru nokkurn veginn sjónarmið þeirra sem telja að ferðaþjónustan sé að fara fram úr sér í kröfugerð sinni um þjónustu opinberra aðila eins og Vegagerðarinnar, lögreglu og björgunarsveita.

Skafinn vegur í Mývatnssveit - Geo Travel
Vegur í Mývatnssveit – MYND: Geo Travel/Anton Freyr Birgisson

Vaxandi þungi var í umræðunni um vetrarþjónustuna eftir lokun Reykjanesbrautarinnar fyrir jól, sem raskaði lífi margra og olli stórtjóni. Vegagerðin sætti harðri gagnrýni vegna þess hversu lengi vegurinn milli höfuðborgarinnar og alþjóðaflugvallarins var lokaður og ráðamenn hétu því að fara í saumana á málinu, sögðust ætla að finna út úr því með góðu fólki í kerfinu hvort hægt væri að hindra að svona lagað endurtæki sig.

Þegar spjótin standa á þér er skynsamlegt að leggja við hlustir, hlusta á gagnrýni og sýna vilja til að bregðast við henni. Það gerði Vegagerðin með því að boða til fundar í morgun um vetrarþjónustuna. Þar kom fram að stöðugt væri leitað leiða til að bæta upplýsingagjöf til vegfarenda, að þeir fengju að vita af ástandi vega og hvers væri að vænta um færð. Slíkar upplýsingar þyrfti að veita á fleiri tungumálum en nú væri gert og þeim yrði að miðla betur inn í leiðsöguforrit.

Einar Pálsson, forstöðumaður vegaþjónustu Vegagerðarinnar, fór yfir þær reglur sem gilda um þjónustustig á vetrum. Áhersla er lögð á að halda helstu flutningaleiðum opnum. Það gerist ekki sjálkrafa að þjónusta aukist á einni leið þó umferð um hana vaxi. Breyting á þjónustu verður ekki nema að til komi nýjar fjárheimildir – segir Vegagerðin og vísar á fjárveitingavaldið.

Einar Pálsson í ræðustól á fundinum um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar

Einar Pálsson nefndi sérstaklega Dettifossleið, en Túristi hefur sagt frá óánægju fólks í ferðaþjónustu á Norðurlandi vegna þess að vegurinn sem er innan þjóðgarðs og kynntur er sem hluti af Demantshringnum sé mikilvægur í markaðssetningu vetrarferðamennsku í landshlutanum.

Dettifossvegur er á svokallaðri G-reglu, sem gildir um fjallvegi sem lokast gjarnan snemma vegna fannfergis eða hálku. Vegagerðin lætur duga að moka Dettifossveg tvisvar í viku á haustin og vorin á meðan snjólétt er, til 1. nóvember – og síðan frá 20. mars. Heimilt er að moka einu sinni í viku til 5. janúar svo fært verði fjórhjóladrifnum ökutækjum ef viðkomandi sveitarfélag borgar helming kostnaðar á móti Vegagerðinni.

Einar gat þess að á síðasta ári hefðu 3,8 milljarðar verið ætlaðir á fjárheimildum til vetrarþjónustunnar en spá um raunverulega útkomu er nærri 5 milljörðum. Veturinn hefur verið erfiður – og kostnaðarsamur. „Að óbreyttu er svigrúm til að auka þjónustu ekki til staðar,“ sagði forstöðumaður vegaþjónustunnar. Ferðaþjónustan fyrir norðan verður að bíða og sjá hvort ráðherrar ferðamála og innviða sjái ástæðu til að verða við ítrekuðum óskum um meiri vetrarþjónustu og beiti sér fyrir því að Alþingi auki fjárveitingar til hennar. Sama gildir um þau fyrir vestan og norðan sem vilja meiri þjónustu á tilteknum mögulegum ferðamannaleiðum.

Demantshringurinn er ófær í dag – MYND: Vefur Vegagerðarinnar

Athyglisvert er það sem Einar Pálsson nefndi, að nýir og góðir vegir eru jafnvel oftar lokaðir en þeir gömlu. Hann sagði að helstu skýringarnar á þessu væru að umferð hefði aukist og óvönum ökumönnum úti á vegum hefði fjölgað, þá safnaðist snjór líka að öryggisgirðingum. Fjúk af slíkum ruðningum myndaði blindu. Það eru sem sagt óvanir erlendir ferðamenn sem gera Vegagerðinni helst lífið leitt þegar færð tekur að spillast.

Viðurkennt var á fundinum í morgun af hálfu Vegagerðarinnar „að breytingar í atvinnulífi, búskaparháttum og ferðþjónustu þrýsta á um endurskoðun þjónustu til að mæta þörfum breytts samfélags,“ eins og Einar Pálsson sagði um leið og hann benti á að breyttar þjónustureglur þyrftu að haldast í hendur við það hversu miklu þjóðfélagið vildi kosta til:

„Kröfur um þjónustu eru meiri en fjárveitingar leyfa. Halli er á þjónustulið Vegagerðarinnar.“

Sól og jeppi á fjöllum - Geo Travel
Fjúk í skammdeginu – MYND: Geo Travel

Nýtt efni

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …

Rauðu og hvítu sporvagnarnir hafa verið meðal táknmynda Istanbúl, þjónað íbúum og ferðamönnum í meira en öld. Nú líður að því að þeim verði skipt út fyrir vagna sem búnir verða rafhlöðum. Vagnarnir hafa gengið eftir spori á Istiklal-breiðgötunni Evrópumegin í Istanbúl. Þeir voru fyrst teknir í notkun árið 1914, á dögum Ottómanveldisins. Ýmsar lagfæringar …

Skattaívilnanir til kaupa á nýjum rafbílum féllu niður um áramótin en frádrátturinn gat numið allt að 1,3 milljónum króna. Nú fæst 900 þúsund króna styrkur frá Orkusjóði í staðinn en sala á rafbílum hefur þó dregist umtalsvert saman það sem af er ári. Á þessum tíma í fyrra höfðu 3.211 nýir rafbílar verið skráðir nýir …

Seljendur hlutabréfa í almennu hlutafjárútboði Íslandshótela, stærsta hótelfyrirtæki landsins, hafa ákveðið að falla frá útboði og þar með skráningu félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Almennu hlutafjárútboði Íslandshótela lauk seinnipartinn í gær en í ljósi þessarar ákvörðunar munu allar áskriftir falla sjálfkrafa niður. Þetta kemur fram í tilkynningu. Vel á þriðja þúsund aðilar tóku þátt í …

MYND: ÓJ

Nýbirt Þróunarvísitala ferðageirans (Travel & Tourism Development Index) fyrir árið 2024, sem Alþjóðaefnahagsráðið ( World Economic Forum) tekur saman annað hvert ár, sýnir að Ísland fellur niður listann um 10 sæti frá 2019 - í 32. sæti, Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru töluvert ofar en Noregur er hins vegar ekki meðal þeirra 119 landa sem …

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar áformaði að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu úr 11 prósentum í 24 prósent um mitt árið 2018. Stjórnin sprakk hins vegar áður en málið fór í gegnum Alþingi. Samtök ferðaþjónustunnar börðust gegn þessari hækkun á sínum tíma og í morgun efndu samtökin til fundar í ljósi þess að „undanfarin misseri …

Ferðafólk fylgist með hval dregnum á land í Hvalfirði

Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands dagana 30. apríl til 7. maí 2024 eru 49 prósent aðspurðra því andvíg að leyfi Hvals hf. til veiða á langreyðum verði endurnýjað. Hins vegar eru 35 prósent aðspurðra því hlynnt. Beðið er ákvörðunar nýs matvælaráðherra. Meginniðurstöður könnunar Maskínu fyrir Náttútuverndarsamtök Íslands - MYND: Maskína Niðurstöður Matvælastofnunar í …