Samfélagsmiðlar

Stjórnendur British Airways beðnir um álit á yfirtöku Icelandair á WOW

Samkeppniseftirlitið bíður nú upplýsinga frá móðurfélagi British Airways á kaupum Icelandair á WOW. Eftir viku ætla eigendur Icelandair að greiða atkvæði um yfirtökuna.

icelandair wow

Samanlagt standa Icelandair og WOW air undir bróðurparti allra flugferða til og frá Keflavíkurflugvelli. Og reyndar hefur vægi innlendra flugrekenda verið hærra hér á landi en þekkist annars staðar í Evrópu. Yfirtaka Icelandair á WOW air hefur því óumflýjanlega þau áhrif að stór hluti af alþjóðaflugi héðan verður á hendi eins fyrirtækis. Forsvarsmenn Icelandair hafa þó bent á að hlutdeild sameinaðs flugfélags verði tæp 4 prósent þegar litið er til áætlunarferða milli Evrópu og Norður-Ameríku. Íslensku félögin eru á þeim markaði í harðri samkeppni við erlend flugfélög og sum bjóða einnig upp á áæltunarferðir til og frá Keflavíkurflugvelli.

Eitt þeirra er British Airways sem flýgur héðan allt að þrisvar á dag frá London en er jafnframt það evrópska flugfélag sem er með flesta áfangastaði í Norður-Ameríku. Á þeim lista er Icelandair í öðru sæti. Og nú hafa stjórnendur IAG, móðurfélags British Airways, fengið beiðni frá Samkeppniseftirlitinu um álit sitt á yfirtöku Icelandair á WOW air. Í svari frá IAG, við fyrirspurn Túrista, segir að fyrirtækið hafi verið beðið um upplýsingar frá íslenskum samkeppnisyfirvöldum og við því verði orðið. Varðandi upplýsingar um hvenær skilafresturinn rennur út þá vísar IAG á Samkeppniseftirlitið. Túristi hefur ekki fengið svar frá eftirlitinu.

Verðmæt lendingaleyfi á Heathrow

Íslandsflug British Airways takmarkast við ferðir frá London en þó frá bæði Heathrow flugvelli og City. Frá þeim fyrrnefnda hefur Icelandair um árabil flogið tvisvar á dag en lendingaleyfi á flugvellinum eru mjög verðmæt vegna þess hve þéttsetinn Heathrow flugvöllur er. Þannig seldi SAS eitt leyfi á þessum fjölfarnasta flugvelli í Evrópu á 60 milljónir dollara (um 7,4 milljarðar króna) fyrir þremur árum síðan.

Hvort virði lendingaleyfa Icelandair er álíka mikið er ekki hægt að fullyrða en það má telja ólíklegt að forsvarsfólk Icelandair gæti sætt sig við að draga úr Lundúnarfluginu frá Heathrow ef Samkeppniseftirlitið gerði kröfu um slíkt. Til að mynda ef umsögn IAG um samrunann verður neikvæð. Stjórnendur IAG gætu til að mynda horft til þess að Aer Lingus, írska flugfélagið sem IAG keypti nýverið, er í harðri samkeppni við bæði íslensku flugfélögin í ferðum milli Dublin og Norður-Ameríku. Það liggur fyrir að flug Icelandair og WOW frá Dublin hefur gengið vel síðustu ár. Það hefur til að mynda komið fram í máli stjórnenda Icelandair á uppgjörsfundum og endurspeglast í fjölgun ferða WOW air til borgarinnar. Skúli Mogensen hafði líka augastað á Írlandi sem nýrri heimahöfn fyrir WOW air.

Innan IAG eru líka flugfélögin Vueling og Iberia Express sem bæði fljúga hingað yfir sumarmánuðina frá Spáni og þá í samkeppni við Icelandair og WOW.

Samkeppnin að gera út af við bæði félög

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet hefur lengi verið umsvifamesta erlenda flugfélagið hér á landi. Upplýsingafulltrúi þess vill ekki svara því hvort fyrirtækinu hafi borist erindi frá íslenskum yfirvöldum. Forstjóri flugfélagsins hefur þó sagt að hann telji að forsvarsmenn íslensku flugfélaganna hafi komist að því að betra væri að vera með eitt fyrirtæki sem rekið væri með hagnaði í stað þess að láta samkeppnina gera út af við bæði tvö.

Eftir viku verður hluthafafundur Icelandair, vegna yfirtökunnar á WOW air, haldinn. Ekki er víst að úrskurður Samkeppniseftirlitsins liggi þá fyrir.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …