Samfélagsmiðlar

Bilaðar Boeing þotur þyngja lífróður Norwegian

Eigendur Icelandair þakka kannski fyrir að félagið losaði sig við Dreamliner þoturnar á sínum tíma. Þær standa þessa dagana á jörðinni óhreyfðar og auka enn á vandræði Norwegian sem er einn helsti keppinautur Icelandair. Bæði í flugi milli Evrópu og N-Ameríku en líka til og frá Keflavíkurflugvelli.

Ein af Dreamliner þotum Norwegian.

Tíu Dreamliner flugvélar úr flota Norwegian eru ónothæfar nú um stundir vegna bilanna sem í mörgum tilfellum má rekja til hreyfla. Sjö af þessum þotum eru hluti af fyrstu Dreamliner flugvélunum sem Norwegian fékk afhentar árið 2013 samkvæmt frétt Dagens Næringsliv. Fastlega má gera ráð fyrir að meðal þeirra séu þoturnar þrjár sem upphaflega voru ætlaðar Icelandair en líkt og Túristi rakti í síðustu viku þá tók Norwegian yfir pöntun Icelandair á þremur Dreamliner árið 2011. Haft er eftir talsmanni Norwegian í frétt DN að sex af þotunum tíu séu í hefðbundnu viðhaldi og í raun séu aðeins fjórar af 37 Dreamliner þotum félagsins í viðgerð.

Vegna ástandsins hefur Norwegian leigt sjö breiðþotur til að fylla það skarð sem hinar biluðu Boeing þotunr hafa skilið eftir í flota félagsins. Á sama tíma hefur kyrrsetning á Boeing MAX reynst félaginu dýrkeypt og tug milljarða leigureikningar hrannast upp hjá Norwegian samkvæmt úttekt Dagens Næringsliv. Því til viðbótar róa stjórnendur norska lággjaldaflugfélagsins einskonar lífróður þessa dagana enda er stórt skuldabréf á gjalddaga í desember og útlit fyrir að félagið eigi ekki fyrir uppgjörinu. Í síðustu viku buðu stjórnendur þess lánadrottnum veð í lendingarleyfum félagsins á Gatwick flugvelli í London gegn því að framlengja skuldabréfið. Nú þegar hefur talsmaður hóps, sem á um fimmtung af bréfunum, líst því opinberlega yfir að þeir muni hafna tilboðinu og krefjast hlutafjáraukningar í staðinn. Gengi Norwegian hefur í framhaldinu lækkað í norsku kauphöllinni.

Tryggð Norwegian við Boeing hefur því reynst félaginu dýr en stjórnendur þess prísa sig kannski sæla með að hafa ekki pantað nýjustu afurð flugvélaframleiðandans, Boeing 777X. Stefnt hefur verið að því að afhenda fyrstu eintökin af henni á næsta ári. Hlutar af skrokki vélarinnar stóðust hins vegar ekki álagspróf í verksmiðjum Boeing fyrir helgi og því hefur prufuflugum á vélinni verið frestað. Það gæti því dregist verulega að afhenda fyrstu eintökin af Boeing 777X og líkt og var raunin með Dreamliner á sínum tíma. Upphaflega gerðu forsvarsmenn Icelandair nefnilega ráð fyrir því að félagið yrði farið að ferja farþega með Dreamliner árið 2010. Þessar þotur voru svo fyrst afhentar Norwegian þremur árum síðar og þá hóf félagið áætlunarflug milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Félagið hefur stóraukið umsvif sín á þeim markaði og boðið lægri fargjöld en áður þekktust. Og fyrir þessu hafa stjórnendur Icelandair vafalítið fundið fyrir því stóru evrópsku og bandarísku flugfélögin hafa svarað samkeppninni frá Norwegian með að lækka sín fargjöld og bjóða farmiða án farangursheimildar að hætti lággjaldaflugfélaga. Þar með hefur komið pressa á fargjöld Icelandair og hafa stjórnendur þess í staðinn einbeitt sér að farþegum á leið til og frá Íslandi. Á þeim markaði hefur Norwegian reyndar líka verið að hasla sér völl og mun í vetur fljúga héðan til fimm spænskra áfangastaða. Icelandair ætlaði sér stóra hluti í Spánarflugi eftir fall WOW air en enn þá hefur ekki heyrst meira af þeim plönum sem skýrist kannski að hluta til af sókn Norwegian hér á landi.

Staða Norwegian er hins vegar tvísýn og rekja má að einhverju leyti til þess trausts sem stjórnendur flugfélagsins hafa sett á nýframleiðslu frá Boeing. Það hefur reyndar líka forsvarsfólk Icelandair á þessari öld gert en þó sloppið með skrekkinn varðandi Dreamliner þoturnar. MAX krísan hefur hins vegar reynst Icelandair dýr.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …