Samfélagsmiðlar

Spyr um skuldir flugfélaga við Isavia

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, óskar eftir upplýsingum um þá áhættu sem Isavia tekur varðandi ógreidd farþega- og lendingagjöld á Keflavíkurflugvelli.

Farþegaþota tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli.

Þó Primera air hafi aðeins staðið undir um einni af hverjum hundrað brottförum frá Keflavíkurflugvelli þá má gera ráð fyrir að tjón Isavia, vegna gjaldþrot flugfélagsins, sem var í eigu Andra Más Ingólfssonar, nemi mörgum tugum milljóna króna. Tjónið af falli Airberlin í fyrra var líklega minna enda kyrrsettu stjórnendur Isavia þotu Airberlin á Keflavíkurflugvelli þangað til að skuldin var greidd. Gera má ráð fyrir að Airberlin hafi skuldað lendingagjöld víðar en hér á landi en flugvallaryfirvöld annars staðar virðast ekki telja sig hafa heimild til að kyrrsetja flugvélar líkt og gert er hér á landi. Isavia greip líka til þessa ráðs til að fá upp í ógreidda reikninga Iceland Express um árið. Ekki tókst þó stjórnendum Keflavíkurflugvallar að ná þotu Primera air áður en félagið fór í þrot í byrjun þessa mánaðar og situr Isavia þar með upp með fyrrnefnt tjón.

Skuldastaðan aftur til 2013

Hver ástæðan er fyrir því að flugfélög geta safnað upp það hárri skuld að kyrrsetja þarf þotur hefur ekki fengist svar við hjá Isavia. Í síðustu viku lagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, hins vegar fram fyrirspurn til samgönguráðherra þar sem spurt er um gjaldtöku á Keflavíkurflugvelli líkt og Miðjan greindi frá. Óskar þingmaðurinn upplýsinga um hvaða reglur gilda í þeim tilvikum sem einstök flugfélög borga ekki þau gjöld sem þeir ber að greiða á flugvöllum landsins. Einnig er spurt hvort dráttarvextir séu reiknaðir, hvaða sektarúrræðum beitt og um jafnræði milli flugfélaga hvað þessi mál varðar. Samgönguráðherra er jafnframt beðinn um upplýsingar um skuldir einstakra flugfélaga allt frá árinu 2013 og hversu stór hluti skuldanna var kominn fram yfir gjalddaga.

Aðspurður um ástæður þessarar fyrirspurnar þá segir Jón Steindór, í svari til Túrista, að hún sé lögð fram vegna umræðu um erfiðleika í flugrekstri. „Nægir auðvitað að benda á gjaldþrot Primera, umræður um Norwegian og fleiri flugfélög. Íslensku flugfélögin hafa ekki verið undanskilin í þeirri umræðu. Isavia er fyrirtæki í opinberri eigu sem hefur mikil umsvif og á í miklum viðskiptum við tugi flugfélaga, eðli málsins samkvæmt. Það er nauðsynlegt að vita hvaða áhætta er tekin í þeim rekstri í samskiptum við flugfélög, hvaða reglur gilda og hvort jafnræðis er gætt milli flugfélaga,“ segir Jón Steindór

Hundruðir milljóna á mánuði

Líkt og Túristi greindi frá um daginn þá nema lendinga- og farþegagjöld Icelandair og WOW air á Keflavíkurflugvelli hundruðum milljóna í hverjum mánuði. Upphæðirnar eru því umtalsverðar og var fullyrt í frétt Morgunblaðsins í síðasta mánuði að skuld WOW við Isavia væri um tveir milljarðar króna. Skúli Mogensen, forstjóri og eini eigandi WOW, vísaði fréttinni samdægurs á bug og sagði í færslu á Facebook að flugfélagið skuldaði ekki yfir 2 milljarða. Eftir stendur þó vafinn hvort skuldin hafi verið undir tveimur milljarðum króna. Því hefur forsvarsfólk Isavia og WOW air ekki viljað svara. Ben Baldanza, fyrrum stjórnarmaður WOW, staðfesti þó við Túrista að hann þekkti til skuldar flugfélagsins við Keflavíkurflugvöll.

Samgönguráðherra gæti varpað ljósi á ógreidd gjöld á Keflavíkurflugvelli þegar hann svarar fyrrnefndri fyrirspurn þingmanns Viðreisnar. Sá flokkur á ekki fulltrúa í stjórn Isavia en í henni eiga sæti fulltrúar stjórnarflokkanna þriggja ásamt fulltrúum Pírata og Miðflokksins.

Þó rekstur flugvalla sé jafnframt í höndum opinberra fyrirækja í löndunum í kringum okkur eru stjórnir þeirra fyrirtækja ekki skipaðar pólítískt líkt og gert er hér á landi. Þess má geta að Matthías Imsland, varaformaður stjórnar Isavia, er samflokksmaður samgönguráðherra og hann er einnig einn af stofnendum WOW air. Skiptar skoðanir eru meðal þingmanna flokkanna á Alþingi um þau hagsmunatengsl, líkt og Túristi greindi frá, en Matthías telur sig þó ekki þurfa að víkja af stjórnarfundum þar sem málefni WOW eru til umræðu.

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …