Samfélagsmiðlar

„Við eigum mikið inni“

Fólk í ferðaþjónustu hefur árum saman lýst eftir meiri áhuga stjórnvalda á hagsmunum greinarinnar, að raunverulegar aðgerðir fylgi því sem gjarnan er sagt á tyllidögum um mikilvægi hennar fyrir þjóðarbúið. Túristi hefur í sumar heyrt þetta stef í samtölum við fólk í ferðaþjónustu um allt land.

Í afgreiðslusal BSÍ.

Við byrjum í Suðursveit þar sem Laufey Helgadóttir og fjölskylda hennar eiga og reka hótel á Smyrlabjörgum. Laufey segir að íslensk ferðaþjónusta hafi staðið sig vel en innviðir hafi ekki fylgt eftir. „Mér finnst eins og ríkið hafi ekki viljað hlusta á fólk í ferðaþjónustunni varðandi það hvað er að gerast. Stjórnvöld töldu sig alltaf vita betur.“

Hún segist enn bíða eftir alvöru stefnu í málefnum ferðaþjónustunnar. „Verið með heildarsýn. Ákveðið stefnuna – þó alltaf þurfi að taka tillit til einhverra breytinga á leiðinni.“

Þarna er tónninn sleginn.

Laufey Helgadóttir á Smyrlabjörgum – Mynd: ÓJ

Skömmu síðar var tekið viðtal við Skarphéðin Berg Steinarsson, ferðamálastjóra, á sólskinsdegi í Reykjavík. Hann ræddi sérstaklega hversu veikburða ferðaþjónustan væri: „Fjárhagsstaðan er ömurleg á heildina litið. Greinin þarf meira eigið fé, beinharða peninga í uppbyggingu og rekstur.”

Þessi veika staða dragi úr möguleikunum til að endurnýja tæki og búnað – mæta kröfum um úrbætur í umhverfismálum.

Skarphéðinn Berg Steinarsson – Mynd: ÓJ

„Við erum að dragast aftur úr,” sagði ferðamálastjóri og bætti við: „Við höfum ekki hugað nógu vel að umhverfismálunum. Þetta á eiginlega við um allt: flugið, bílaaksturinn um hringveginn og almennt notkun jarðefnaeldsneytis, val á matvælum og nýtingu þeirra, fráveitumálin. Við höfum ekki haft þessi mál í fókus þó vissulega séu sífellt fleiri að setja þau á dagskrá hjá sér.“ 

Nei, það er enginn hörgull á krefjandi verkefnum framundan fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Bjarnheiður Hallsdóttir – Mynd: ÓJ

Bjarnheiður Hallsdóttir var kjörin formaður Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2018, þegar hátindi var náð fram að þessu í komum erlendra ferðamanna. Svo skall á heimsfaraldur. „Þetta hefur verið barningur,“ viðurkenndi Bjarnheiður í júlíbyrjun.

„Við getum í rauninni sagt að fram til 2010-11 hafi ferðaþjónustan verið léttvæg miðað við það sem hún er í dag. Það er erfitt að breyta hugsunarhætti – að fá alla til að líta á ferðaþjónustuna sem eina af grunnstoðum atvinnulífsins, mikilvæga við öflun gjaldeyristekna, forsenda hagvaxtar í landinu. Mér finnst við færast nær þessu með hverju árinu sem líður. Þetta hefur verið hörð hagsmunabarátta – að fá fólk til að taka greinina alvarlega. Við eigum mikið inni. Ég er sannfærð um að ferðaþjónustan á eftir að vaxa mikið.“

Afgreiðsla Eldingar við Reykjavíkurhöfn – Mynd: ÓJ

Formaður SAF segir ferðaþjónustuna „eiga mikið inni.“ Þar er fyrirsögn þessarar samantektar komin. Meiningin er sú að ferðaþjónustan eigi eftir að vaxa mikið – en gæti líka vísað til þess að ferðaþjónustan eigi mikið inni hjá þeim sem móta stefnuna í landinu, skapa atvinnugreinum lífsskilyrði.

Rannveig Grétarsdóttir – Mynd: ÓJ

Önnur forystukona í ferðaþjónustunni, Rannveig Grétarsdóttir hjá Eldingu, stjórnarformaður Íslenska ferðaklasans, talaði alveg skýrt í viðtali við Túrista 26. ágúst og kvartaði undan áhugaleysi hjá ríkisvaldinu gagnvart ferðaþjónustunni: „Okkur líður þannig að fókusinn sé farinn. Nú sé ferðaþjónustan komin á fullt, erfiðleikarnir að baki, við búin að jafna okkur. En þetta gerist ekki á þremur mánuðum. Farið var í stefnumótun og mikla vinnu fyrir þremur árum en ekki er komin nein aðgerðaáætlun! Við höfum mjög kallað eftir aðgerðaáætlun en fáum lítil svör. Engin merki eru um það yfir höfuð að verið sé að vinna slíka áætlun.”

Rannveig var þá spurð hvort henni virtist sem greinin væri ekki tekin alvarlega.

Hún svaraði: „Nei, við erum ekki tekin alvarlega. Ennþá er það þannig að ekki er litið á okkur sem alvöru atvinnugrein. Auðvitað fannst manni að allir tækju okkur alvarlega þegar staðan var sú að ferðaþjónustan var orðin sú grein sem aflaði mestra gjaldeyristekna, síðan duttum við auðvitað niður í Covid-19, en við verðum það aftur, “ sagði Rannveig og lýsti eftir meiri alvöru og staðfestu.

Morgunblaðið 27. ágúst 2022

Daginn eftir þetta viðtal við Rannveigu í Túrista birti Morgunblaðið grein eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, ferðamálaráðherra.

Þar ræðir hún efnahagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir íslenskt þjóðarbú og talar um aðgerðaáætlunina sem Rannveig hafði lýst eftir: „Eitt helsta forgangsverkefnið nú í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfluga aðgerðaáætlun á sviði ferðamála á grunni Framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Þar er lögð áhersla á sjálfbærni á öllum sviðum.” Þetta sagði ráðherra ferðamála seint í ágúst. 

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir – Mynd: ÓJ

Og enn heldur umræðan áfram um vægi ferðaþjónustunnar og stöðu hennar gagnvart valdinu.

Túristi ræddi við Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans, og var viðtalið birt 4. október: „Okkur skortir oft hugrekki til að taka stórar ákvarðanir, sem leiða okkur inn í öðruvísi framtíð en nú blasir við. Við þurfum að hafa hugrekki til að taka umdeildar, erfiðar, óvinsælar ákvarðanir. Til þess eru stjórnmálamenn, við kjósum þá á þing til þess,” sagði Ásta Kristín.

Hún ræddi almennt mikilvægi þess að gripið yrði til aðgerða til að dreifa ferðafólki betur um landið og draga úr ójafnvægi í ferðaþjónustunni, t.d. með því að fjölga gáttum inn í landið, en kjarninn í því sem framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans hafði að segja um hlutverk stjórnmálamanna var þetta: „Það verður að binda fjármagn við tilteknar aðgerðir. Atvinnugreinin og stjórnvöld unnu mjög vel saman árið 2019 við að móta framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu, sem felur í sér að vera leiðandi á heimsvísu í sjálfbærni árið 2030. En til að þetta markmið náist þarf ekki seinna en í gær að móta aðgerðir og fjármagna þær til að segja hvernig við ætlum að vera leiðandi – og hverjir ætli að vera leiðandi. Eru það fyrirtækin eða stjórnvöld?”

Á Skólavörðustíg – Mynd: ÓJ

Ásta Kristín telur að okkur hafi ekki tekist sem skyldi að nota heimsfaraldurinn til „að setja fram áætlun um aðgerðir, finna hugsanlegt samkeppnisforskot, ákveða hvar viðkomandi ætlaði að beita sér, og hvað hver ætti að gera.”

Þetta hafi Noregur gert en á Íslandi hefði mátt gera betur. „Stjórnvöld gerðu mjög vel í því að styðja fyrirtækin fjárhagslega og halda þeim á lífi. Við hefðum viljað að til viðbótar hefðu verið gerðar kröfur til þessara fyrirtækja sem fengu fjármagn um það hvernig þau ætluðu sér að koma til baka – að þau væru með sjálfbærnistefnu, væru að vinna að því að auka gæði og hæfni starfsfólks, að þau legðu eitthvað fram á móti því að fá fjárhagslegan stuðning.”

Það er þetta með sjálfbærnina. Góður vilji dugar ekki til. 

Morgunblaðið 6. október 2022

Tveimur dögum eftir að Túristi birti viðtalið við Ástu Kristínu hjá Íslenska ferðaklasanum, sem leiðir  margskonar umbótastarf og innleiðingu sjálfbærni, þá skrifar ferðamálaráðherrann, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, aðra grein í Morgunblaðið. Þar segir hún að íslensk ferðaþjónusta hafi náð meiri styrk eftir heimsfaraldur en almennt hafi gerst á heimsvísu og það hafi gerst vegna góðrar frammistöðu ferðaþjónustunnar og samstarfsins við stjórnvöld.

Síðan segir ráðherra: „Tíminn var vel nýttur þar sem stjórnvöld lögðu áherslu á að styðja við fólk og fyrirtæki í gegnum faraldurinn. Þannig náðist að verja mikilvæga þekkingu fyrirtækjanna og þá innviði sem nauðsynlegir eru til að taka á móti fjölda ferðamanna á ný.”

Þá nefnir ráðherra miklar fjárfestingar í innviðum og markaðssetningu. Þessi orð ráðherra stangast á við það sem ýmsir í ferðaþjónustunni segja um að orðum þurfi að fylgja fjármögnuð verkáætlun. 

Anton Freyr Birgisson – Mynd: ÓJ

Umkvörtunarefni ferðaþjónustunnar snúa ekki öll að forystuleysi í ráðuneyti ferðamála heldur líka almennt að mörgum þeim stofnunum sem áhrif hafa á starfsskilyrði hennar og afkomu. Í júlí ræddi Túristi við ungan forkólf í ferðaþjónustu í Mývatnssveit, Anton Frey Birgisson, sem gagnrýndi skilningsleysi gagnvart þeim sem væru að reyna að skapa sér atvinnu með ferðaþjónustu. Fór hann yfir samskipti við Vegagerðina og gagnrýndi þær reglur sem hún fylgi.

Anton Freyr sagði að ferðaþjónustan sæti ekki við sama borð og landbúnaður og sjávarútvegur: „Langt frá því. Það er svo langt á milli að það er erfitt að færa það í orð. Blákaldur veruleikinn er sá að ferðaþjónustan er hvergi í regluverkinu.” 

Friðrik Rafnsson – Mynd: ÓJ

Leiðsögumenn fagna nú 50 ára starfsafmæli félags síns. Formaður Leiðsagnar, Friðrik Rafnsson, ræddi faglega stöðu þeirra, starfskjör og aðstæður í Túrista 8. október. „Auðvitað þarf að efla vinnustaðaeftirlit í ferðaþjónustunni, fylgjast betur með því hvernig staðið er að verki,” sagði hann og bætti við: „Því miður þykir okkur vera dálítið andvaraleysi í þessum málum. Eftirlit af hálfu skattayfirvalda, lögreglunnar og Vinnueftirlitsins er því miður ekki nógu gott. Við höfum unnið að því með Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar að bætt verði úr en vilji til að hafa skýrar og framkvæmanlegar reglur er ekki til staðar. Menn skjóta sér á bak við hugtök eins og athafnafrelsi – og nefna Evrópureglugerðir. Þetta er í betra horfi í löndunum í kringum okkur. Ef pólitískur vilji stendur til þess að frumskógarlögmálin gildi þá verður það þannig áfram. Ég trúi hinsvegar orðum Lilju Alfreðsdóttur, ferðamálaráðherra, og fleiri, að standa eigi vel að málum í þessari atvinnugrein sem orðin er ein af burðarstofum hagkerfisins.”

Í Leifsstöð 12. október 2022 – Mynd: ÓJ

Á komandi vetri kemur betur í ljós hver raunverulegur styrkur íslenskrar ferðaþjónustu er. Hverjir ráða við að borga af lánum og kosta nauðsynlega endurnýjun – að ekki sé talað um nýja sókn byggða á sjálfbærni og ströngustu kröfum í umhverfismálum.

Túristar við Reykjavíkurhöfn. Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …

Stjórn Volvo Cars ætlar að láta af því verða að minnka hlutinn í sænska rafbílaframleiðandanum Polestar en áformin voru fyrst kynnt í byrjun þessa mánaðar. Fjárfestar tóku tíðindunum vel því hlutabréfin í Volvo hækkuðu í kjölfarið um fjórðung. Endurteknar hlutafjáraukningar Polestar hafa nefnilega haft neikvæð áhrif á gengi Volvo í kauphöllinni í Stokkhólmi samkvæmt frétt …

Notkun á sjálfbæru eldsneyti er besta leiðin til að draga hratt úr losun frá flugsamgöngum, segir Willie Walsh, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands flugfélaga, IATA. Hann ræddi mikilvægi þess að minnka losun í ávarpi sínu á flugmálaráðstefnu Changi í Singapúr í vikunni.  Willie Walsh undirstrikaði í ávarpi sínu að flugheimurinn stefndi staðfastlega að kolefnishlutleysi árið 2050: „Við megum …

Vesturland er í útjaðri meginstraums erlendra ferðamanna sem koma til Íslands. Flestir eru þeir á Suðvesturlandi, fara Gullna hringinn og meðfram suðurströndinni - en auðvitað aka margir þeirra eftir Hringveginum í gegnum Borgarfjörð eða halda upp á Snæfellsnes - og áfram sem leið liggur til Vestfjarða með ýmsum útúrdúrum. Við ætlum sem sagt ekki að …